Hvað er súrkál?
Alvöru gamaldags súrkál er sýrt með mjólkursýrugerjun, en það er ævagömul náttúruleg leið til að geyma grænmeti. Mjólkurvörur koma hvergi við sögu, heldur eru það mjólkursýrugerlar (sem eru náttúrulega til staðar á grænmeti) sem sýra grænmetið. Einu innihaldsefnin eru grænmeti, krydd og salt.
Aðferðin gengur út á að skapa réttar aðstæður svo mjólkursýrugerlarnir nái yfirhöndinni og koma af stað gerjun. Þeir lifa á sykrum úr grænmetinu og á nokkrum vikum sýrist grænmetið. Það verður verður auðmeltanlegra og vítamín og næringarefni varðveitast vel.
Að auki er mjólkursýrt grænmeti fullt af góðgerlum sem bæta og kæta þarmaflóruna.
Súrkál fyrir sælkera er ógerilsneytt lifandi súrkál. Það þýðir að við hitum það aldrei því við viljum ekki drepa góðgerlana. Best er að geyma Súrkálið fyrir sælkera í kæli, því annars er hætt við að freyði hreinlega upp úr krukkunum. Þó súrkálið sé komið í krukkur og í kæli heldur gerjunin nefnilega áfram, það bara hægist mjög mikið á henni. Við gerjunina myndast mjólkursýra og kolsýra og kolsýran myndar þrýsting eins og í gosflösku. Það er eðlilegt að það kraumi og frussi í krukkunum þegar þær eru opnaðar i fyrsta sinnþví kolsýran vill sleppa út (þetta gerist þó alls ekki alltaf). Það er góð regla að opna krukkuna yfir diski eða skál, sérstaklega ef lokið er þanið. Þá má láta kálið gjósa og troða því sem sleppur út aftur í krukkuna.
Lifandi góðgerlar – Bætir og styrkir þarmaflóruna – Engin aukaefni – Án viðbætts sykurs – Vegan – Ketó – Raw
Súrkál er best með öllu!
Súrkál er frábært meðlæti með flestum mat. Það er ágætis regla að ef það passar á annað borð að borða grænmeti með matnum, þá er súrkál gott með honum.
Flestir skella bara einni eða fleiri skeiðum af súrkáli á diskinn með því sem er í matinn þann daginn.
Að hræra dálitlu af sýrðum rjóma eða mæjónesi (venjulegu eða vegan) saman við vel kryddað súrkál og bera fram sem hrásalat eða hreinlega sem salat ofan á kex.
Að bæta uppáhalds súrkálinu saman við kartöflusalat eða aðra rétti í staðinn fyrir pickles eða súrar gúrkur.
Nokkrar hugmyndir:
- ofan á hamborgarann
- með pylsum
- inn í vefjur af ýmsu tagi.
- Í salöt, hrásalat, baunasalat, byggsalat
- út í hrísgrjón, bygg eða soðnar baunir.
- Ofan á brauð eða kex, með öðru áleggi eða eitt og sér
- út í súpur
- með raclette (bræddum osti)
Karrýkál er algjör galdur blandað saman við dálitlu af sýrðum rjóma eða mæjónesi. Það minnir á ,,Coleslaw“ eða gamla góða hrásalatið, nema á sterum! Það er ómissandi með grillmat, steiktum fiski og passar satt að segja með flestum mat.
Í Kóreu er borðað dálítið af Kimchi með öllum máltíðum. Það passar sérlega vel með núðlum og grjónum, út í súpur, inn í vefjur, ofan á hamborgara og síðast en ekki síst blandað í Kimchi-mæjó sem meðlæti með nánast hverju sem er.
Rauðmeti er stórgott með öllu sem passar að hafa rauðkál með og algjör snilld með kæfu ofan á brauð.
Súrkálið okkar
Klassískt
Klassíska kálið okkar er líkast því súrkáli sem flestir kannast við. Innihaldið er hvítkál kryddað með dálitlu kúmeni. Einfalt og klassískt og stendur alltaf fyrir sínu.
Spæsí jalapenó
Spæsí Jalapenó er út káli og ferskum grænum jalapeno. Það rífur aðeins í en er ekki eldheitt.
Karrýkál
Karrýkálið er bragðmikið súrkál. Það er úr káli, gulrótum og lauk og er kryddað með karrý, hvítlauk, engifer og chillí.
Pylsukál
Hvað er betra með pylsum en súrkál, laukur og sinnep? Við ákváðum að þróa uppskrift sem hefði allt þetta. Uppistaðan er kál en einnig er dálítið af gulrótum, bæði fyrir sætuna og ekki síður fyrir útlitið. Svo er í því laukur, kúmen og heilmikið af sinnepsfræjum. Pylsukálið vann til bronsverðlauna í Askinum, Íslandsmeistarkeppni í matarhandverki 2019.
Curtido
Curtido er kryddað en alls ekki sterkt. Uppskriftin kemur frá El Salvador en þar er það er hluti af þjóðarréttinum sem eru fylltar tortillur með vænni hrúgu af Curtido ofan á. Þetta er einstaklega byrjendavænt súrkál. Uppistaðan er kál, gulrætur og laukur og það er kryddað með origano, hvítlauk, broddkúmeni og chilli.
Kimchi
Rauðmeti
Rauðmeti er frekar bragðmilt. Innihaldið er alls kyns rautt grænmeti. Það inniheldur rauðkál, rauðrófur, gulrætur og rauðlauk og er hóflega kryddað með engifer.
Sítrónukálið ljúfa
Sítrónukálið ljúfa er dásamlega frískandi súrkál. Í því er aðeins kál og sítrónur og þó að það sé sannarlega súrt er það milt með fínlegu bragði.
Súrskot
Súrskot er safi úr súrkáli. Í því er ekkert viðbætt vatn, heldur er þetta eingöngu vökvi úr grænmetinu sem fellur til við framleiðsluna. Þegar súrkálið er tilbúið pökkum við því í krukkur. Oft verður svolítið umfram af vökvanum og honum töppum við á flöskur. Súrskot er vinælt sem heilsusamlegt ,,skot“ og hefur sömu heilsusamlegu eiginleika og súrkál. Það er líka sniðugt að nota í salatdressingar, til að krydda og marínera og svo þykir það vera afbragðsgott við þynnku! Súrskot eru til í öllum þeim bragðtegundum sem við framleiðum súrkál og Kimchi súrkotið okkar vann til silfurverðlauna í Askinum, Íslandsmeistarakeppni í matarhandverki árið 2019.
Súrskot - Rauðrófu
Súrskot - Curtido
Súrskot - Karrý
Súrskot - Sítrónu
Súrskot - Sól í hjarta
Kvass
Kvass er gerjaður rauðrófudrykkur. Þetta er hefðbundinn svaladrykkur í Rússlandi, Úkraínu og víðar. Það er til alls kyns áfengur Kvass, en rauðrófukvass er heilsudrykkur sem er búinn til á svipaðan hátt og súrkál. Í Kvassinu okkar eru ekki bara rauðrófur, heldur bragðbætum við það með rauðkáli, gulrótum og engifer. Við gerjum grænmetið í daufu saltvatni og sigtum svo grænmetið frá þegar drykkurinn er tilbúinn. Kvass má nota sem heilsusamlegt ,,skot“ á sama hátt og Súrskot eða njóta þess að drekka það með mat úr fallegu glasi.
Kvass - Rauðrófu
Súrkál fyrir sælkera fæst í eftirfarandi búðum
Frú Lauga
Fræið - Fjarðarkaup
Hagkaup
Skeifunni, Kringlunni, Smáratorgi, Akureyri, Spöng
Kjöthöllin
Krónan
Bíldshöfða, Granda, Hafnarfirði, Lindum Kópavogi, Mosfellsbæ, Selfossi, Skeifunni, Hallveigarstíg, Garðabæ, Norðurhellu
Nettó
Borgarnesi, Granda, Hafnarfirði, Mjódd, Reykjanesi
Melabúðin
Gott og blessað
Matarmarkaður á netinu
Um okkur
Huxandi er lítið fjölskyldufyrirtæki sem framleiðir Súrkál fyrir sælkera. Það er rekið af hjónunum Dagnýju Hermannsdóttur og Ólafi Loftssyni og ættingjar og vinir hjálpa til þegar þörf er á.
Fyrirtækið hefur starfað frá október 2017 með starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur og er með aðstöðu í Matís. Dagný lærði að búa til súrkál árið 1984 en það var þó ekki fyrr en á þessari öld sem hún fékk dillu fyrir því og fór að gera tilraunir með að gerja alls kyns grænmeti.
Hún hefur haldið fjölda námskeiða í súrkálsgerð undanfarin ár og 2018 gaf Forlagið út bók hennar ,,Súrkál fyrir sælkera“. Ólafur datt fljótlega í súrkálstunnuna með henni og líf þeirra hefur verið frekar súrt allar götur síðan.